Monday, October 28, 2013

Smáralindin

Þetta sumar hef ég fundið fleiri fjögurra blaða smára en ég hefði nokkru sinni trúað að væru til og alla nema einn í garðinum mínum.
Í júní fann ég þann fyrsta á leið minni í gegnum garðinn. Nokkrum dögum síðar átti ég aftur leið um garðinn að sækja Grím á leikskólann, þá fann ég fjóra og fannst græðgi að leita að fleirum í bili. Ég benti þó Funa og frændum hans að litast um eftir fleirum. Þeir fundu 10 til viðbótar þennan sama dag!
Einhver benti mér á að vegna hlýnunar jarðar væri orðið meira um fjögurra blaða smára og má það vel vera. Sá hinn sami benti á að 5 laufa smári væri hinn nýji lukkusmári.
Í júlí fann ég 5 laufa smára í garðinum. Nokkru síðar fann ég enn einn fjögurra laufa smára.
Í ágúst var ég að taka myndir og leit niður og fann þá fjögurra laufa smára ágústmánaðar.
Á afmælisdaginn minn í september fann ég svo síðasta smárann.
Fleiri smárafundir hér og hér.
Ég vona sannarlega að fjögurra laufa smári sé ennþá lukkusmári og trúi því þar til annað kemur í ljós.